149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:14]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni þegar þessu innleiðingarferli er lokið þá verður ekki aftur snúið. Við breytum því ekkert nema þá bara hreinlega segja EES-samningnum upp og við höfum ekkert talað fyrir því. Hins vegar er þessi samningur tvíhliða samningur og þá ber auðvitað að horfa til þess að báðir aðilar geta leitað eftir sameiginlegri niðurstöðu ef einhver ágreiningur er. Það er einmitt sú aðferðafræði sem við leggjum til hér, Miðflokkurinn, að verði notuð, að finna sameiginlega lausn og varanlega undanþágu. Íslensk stjórnvöld eiga bara að gera Evrópusambandinu það ljóst að þetta sé áhyggjuefni fyrir Ísland og þjóðina, almenning í landinu, að undirgangast þetta með óbreyttum hætti og þess vegna eigum við að fara þá leið að fá þessa undanþágu.

Varðandi Orkustofnun er þetta alveg rétt hjá hv. þingmanni, og það sem er áhyggjuefni í þeim efnum, að nú á að fara að hækka eftirlitsgjaldið á (Forseti hringir.) raforkuframleiðendur í landinu, sem þýðir væntanlega að það fer út í verðlagið, þannig að við erum þegar farin að sjá áhrif af þessu, frú forseti.