149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:58]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni kærlega fyrir fyrirspurnina. Þetta er það sem ég ætlaði að halda áfram að ræða, þ.e. um uppbyggingu iðnaðar eða endalok hans sem er kannski miklu alvarlegra mál.

Samkeppnishæfni iðnaðar og framleiðslu á Íslandi byggist á hagkvæmu orkuverði. Hún byggist ekki á nálægð okkar við markaði. Hún byggist ekki á nálægð okkar við náttúruauðlindir, eins og t.d. álið. Hún byggist fyrst og fremst á því að hér er ódýr orka sem gerir Ísland samkeppnishæft.

Við getum alveg séð fyrir okkur að með samræmingu raforkuverðs í Evrópu verður það ekki hagur fyrirtækja að vera norður í Atlantshafi, á Íslandi, af því að orkuverðið þar verður hið sama og það verður í Þýskalandi. Þá verður mun nær að vera með framleiðslu sem er nær stærri mörkuðum, sem er nær öflugum flutningskerfum, eins og höfnum, og sem er nær náttúruauðlindum.

Hvort sem varðar aðföng til að framleiða eða til að koma fullunninni vöru frá sér verða fyrirtækin miklu betur staðsett í Evrópu en hér á Íslandi. Og þá verðum við að spyrja okkur: Hvað verður þá um okkur hér á Íslandi? Hvernig ætlum við að höndla það? Gríðarlegur fjöldi starfa mun tapast hér, ég held að það sé alveg ljóst. Þetta kann að hljóma eins og einhver heimsendaspá en ég held að það sé gott að velta þessu fyrir sér.