149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir kröftuga og góða ræðu þar sem þingmaður fer með mjög skýrum hætti yfir það ferli sem gerðirnar þurfa að fara í gegnum til að innleiða þær í íslenskan rétt. Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann út í: Er það ekki svo, samkvæmt hans niðurstöðu, að í rauninni skiptir engu máli hvað þessi fyrirvari segir, við innleiðinguna verðum við hluti af orkumarkaði ESB, eða EES-svæðisins, hvort sem við tengjumst með streng einhvern tímann eða ekki? Við verðum aðilar að þessum markaði enn frekar með því að innleiða þessar gerðir eins og lagt er upp með hér, burt séð frá því að hér sé einhver fyrirvari til heimabrúks.

Síðan er mikilvægt að svara því líka þannig að það sé algjörlega á hreinu, að þó við setjum einhver lög á Íslandi varðandi innleiðingu eða einhverja túlkun á Evrópusambandslögunum eða lögunum á EES-svæðinu, er það þá þannig að íslensku lögin gilda þegar komið er fyrir EFTA-dómstólinn eða eru það evrópsku lögin sem gilda? Segjum svo að einhver höfði mál gegn íslenska ríkinu fyrir að hafa ekki innleitt þessar gerðir með réttum hætti eða þá aðíslenska ríkið komi í veg fyrir eða uppfylli ekki skyldur sínar, t.d. þjónustutilskipunina eða eitthvað af fjórfrelsinu, að það mál er rekið, væntanlega, fyrir EFTA-dómstólnum en ekki íslenskum dómstólum — og hvaða lög gilda þá þar? Eru það ekki lög Evrópusambandsins eða EES-svæðsins sem gilda þar?

Síðan langar mig að taka undir það með hv. þingmanni að auðvitað er þessi fyrirvari í sjálfu sér ekkert annað en orðskrúð eða falleg orð á blaði, því hann er eingöngu fyrir okkur.