149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:31]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Ég er nú ekki sérfræðingur í Evrópurétti og þekki ekki hvernig kaupin gerast á eyrinni fyrir sameiginlegu EES-nefndinni eða regluverkið í heild sinni eða í einhverjum smáatriðum, alls ekki. En ég geri mér fulla grein fyrir því að nú stöndum við á þeim tímapunkti og þeirri örlagastundu að við erum hér að velja. Við erum að velja að innleiða regluverkið, þriðja orkupakkann, eins og hann liggur fyrir, í heild sinni.

Þegar við erum búin að því verður ekki aftur snúið. Hins vegar ef við ákveðum að gera það ekki getum við farið þá leið sem ég nefndi áðan, þ.e. að fara aftur fyrir sameiginlegu EES-nefndina. Og sú leið er vörðuð í samningnum í lagagrein sem ég nefndi áðan, þannig að ég tel það vera augljóst þegar um þetta mál er að ræða.

Það er alls ekki nauðsynlegt að falla frá þjóðréttarlegum fyrirvara í þessu máli og veita þannig ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar lagagildi hér á landi. Það er alls ekki nauðsynlegt. Einmitt vegna þess að öllum ber saman um, bæði þeim sem hafa talað á móti þessu máli og með því, að þessi lagaákvæði eiga ekki við hér á landi að óbreyttu og hafa ekki raunhæfa þýðingu hér eins og staðan er í dag. Það eru allir sammála um þetta.

Af hverju í ósköpunum eigum við þá ekki einmitt að nota þessa vörðuðu leið sem er að finna í samningnum sjálfum?