149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:52]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég hef meiri áhyggjur af því að allt tal um upplausn EES-samningsins, eins og þetta mál geti einhvern veginn búið til óvissu um framtíð hans, sé í rauninni meira til þess fallið að grafa undan honum en umræða um hvort við eigum að nota 102. gr. eða ekki.

Við vitum alveg að um leið og við förum að upplifa eitthvað sem einhliða, eða jafnvel einhvers konar ógnartilburði, þá leggst það ekki vel í mannskapinn yfirleitt. Ég held því að við eigum að láta af því að tala eins og þetta muni hleypa EES-samningnum í uppnám. Það er alveg klárt og kvitt, og um það deilir í rauninni enginn, að þetta er hin lögformlega leið, að fara með málið aftur til EES-nefndarinnar.