149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:11]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú ætla ég ekki að halda því fram að afgreiðsla eins og þessi, sem nú er reynt að þvinga í gegn, sé algeng. Þó er það þannig að víst hefur þetta átt sér stað nokkrum sinnum á mínum ekki svo mjög langa ferli. Maður hefur orðið var við þetta nokkrum sinnum. Afgreiðsla eins og þessi, þ.e. þær afgreiðslur sem hafa líkst þessari, á þessum tíma hafa allar átt það sameiginlegt að hafa reynst illa og hafa verið til skaða, hafa verið vondar fyrir land og þjóð.

Það sem ég skil ekki er ótti ríkisstjórnarflokkanna við að nýta þau áhöld og tækifæri sem eru í samningnum, þ.e. 102. gr. Ég skil ekki að menn skuli skorta kjark til þess að stíga til baka þetta eina skref, naglfesta fyrirvarana sem við Íslendingar þurfum að gera í stað þess að vera með einhverja loðmullu um einhvern sameiginlegan skilning um fyrirvara sem finnst ekki en dúkkar svo upp í reglugerð sem á nota bene eftir að setja.

Þetta er eins og að rífa hurðina upp á gátt og ætla svo að fara í gerðardóm eða setja í reglugerð dragsúginn sem kemur inn og kuldann sem fer inn í húsið. Ég bara skil ekki hvers vegna menn hafa ekki þann kjark sem þarf til að stíga skref sem við höfum rétt á að stíga.