149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:14]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fljótu bragði rámar mig ekki í að mál af þessari stærðargráðu, með þeim afleiðingum sem samþykkt þess hefur, hafi verið keyrt í gegnum þingið í þvílíku flaustri sem hér er. Umræðan sem fór fram í síðustu viku, og umræðan sem fer fram í dag og í kvöld, dýpkar þessa umræðu. Nú veit ég ekki hvað fjölmiðlar eru duglegir við að kynna það sem hér kemur fram — ég óttast að það sé kannski fátækt í því efni — en ég held að þeir sem fylgst hafa með þessari umræðu, bæði í síðustu viku og í dag og í kvöld, og þá er ég að tala um almenning, séu allmiklu fróðari um það hvað er undir eftir en áður. Það er það sem er kannski svo gremjulegt, að menn skuli ekki taka þann tíma sem nauðsynlegur er til þess að færa þennan skilning og þessa þekkingu yfir til þjóðarinnar.