149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:55]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu. Ef ég held aðeins áfram á þeim nótum sem hv. þm. Bergþór Ólason kom inn á og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson einnig í andsvari — hér var nefndur atvinnurekstur á borð við garðyrkjuna og síðan bakaraiðnin og fleira — verðum við að spyrja okkur þessarar grundvallarspurningar: Hefur markaðsvæðing orkunnar sem varð hér á Íslandi sérstaklega við orkupakka eitt og síðan tvö, orðið okkur til góðs? Ég held að svarið sé ósköp einfalt: Hún hefur ekki orðið okkur til góðs. Þar getum við nefnt fyrirtæki eins og hjá bakarameisturum og í garðyrkju. Þetta voru aðilar sem fengu að kaupa svokallaða næturorku á mun lægra verði, en þurftu hins vegar að sætta sig við verulega hækkun þegar orkupakki eitt var innleiddur og tók gildi árið 2005, þ.e. samkeppnisstaða þessara aðila versnaði verulega og við, almenningur í landinu, þekkjum það síðan að verð hækkaði á þessum vörum. Þetta fór út í verðlagið og með tilheyrandi hækkun á vísitölu og lán hækkuðu hjá almenningi. Það er því ljóst að markaðsvæðing orkunnar hér á landi hafði í för með sér hækkun og nú á að fara stíga skrefið enn þá lengra og við verðum þátttakendur í markaðsvæðingu á Evrópusvæðinu öllu, að vísu þegar sæstrengurinn kominn, en verið er að undirbúa allt saman fyrir sæstrenginn sem mun koma.

En það sem er athyglisvert er að í fyrri ræðu var rætt um traust gagnvart stjórnmálamönnum. Þá er rétt að athuga frétt sem birtist í Vísi í febrúar 2005. Þar er m.a. þáverandi iðnaðarráðherra spurð að því hvort þessi nýju raforkulög sem þá tóku gildi vegna innleiðingar orkupakka eitt myndu hafa það í för með sér að orkuverð hækkaði. Þáverandi iðnaðarráðherra svaraði því neitandi. Orkuverð myndi ekki hækka.

Síðan gerist það bara að orkuverðið hækkar og ný raforkulög taka gildi og þau bönnuðu ýmis sérkjör sem voru í gangi, þar á meðal til garðyrkjunnar, bakarameistara og fleiri aðila sem nutu sérstakra sérkjara, m.a. til að niðurgreiða húshitun á ákveðnum svæðum þar sem ekki var hitaveita. Öll svona kjör voru bönnuð með orkupakka eitt. Maður spyr sjálfan sig: Hvers vegna í ósköpunum vorum við að undirgangast regluverk Evrópusambandsins sem bannaði svona sérkjör, t.d. bara gagnvart þeim sem kynda hús sín með rafmagni?

Ég segi, og hef sagt það áður í ræðu hér: Hvað kemur Brussel það yfir höfuð við að við skulum hafa verið að niðurgreiða t.d. rafmagn til húshitunar á köldum svæðum í okkar harðbýla landi? Ég segi fyrir mitt leyti, herra forseti: Stjórnmálamenn hafa ekki staðið sig í því að verja hagsmuni Íslendinga gagnvart þessu máli og dapurlegt til þess að hugsa hvernig við beygðum okkur bara fyrir þessu regluverki sem hafði slæm áhrif fyrir fjölda landsmanna og fyrirtækja.

Þannig að það er í mínum huga ótrúlega léleg hagsmunagæsla af hálfu íslenskra stjórnmálamanna að hafa komið því til leiðar að þetta gerðist. Það hefði aldrei átt að gerast. Þess vegna segi ég að sporin hræða. Ég óttast mjög að það sama verði uppi á teningnum núna og sé það gerast að stjórnmálamenn, stjórnarmeirihlutinn og ríkisstjórnin, séu að beygja sig undir þetta vald og haldi ekki frammi hagsmunum þjóðarinnar, (Forseti hringir.) sem eru mun ríkari (Forseti hringir.) og meiri.