149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:08]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir góða ræðu. Hann kom inn á það að hér væri verið að innleiða meginlandshugmyndafræði sem ætti raunverulega ekki við á Íslandi. Það virðist vera óumdeilt á þingi hjá öllum þeim sem hafa tekið til máls að þetta eigi ekki við, Ísland sé vissulega eyja og við séum ótengd.

Hv. þingmaður kom einnig inn á að með innleiðingu fyrsta og annars orkupakka, einkum annars orkupakkans, hafi verið bannað að veita sérkjör til notenda á Íslandi en þau eru gríðarlega mikilvæg, að við ráðum því á hvaða verði við seljum orkuna okkar til þeirra sem þurfa að nota hana hér á landi. Er það ekki hlutverk okkar sem hér sitjum og stöndum að standa vörð um hagsmuni Íslands, um hagsmuni Íslendinga og þeirra sem kjósa að búa hér eða reka fyrirtæki? Maður myndi halda það.

Markaðsvæðing með hagsmuni neytenda í huga getur átt við í Evrópu, þ.e. meginlandshugmyndafræði, þar sem gilda allt önnur lögmál en gera hér. Ég hef fullan skilning á því þar sem orkuverin og þeir sem selja orkuna eru einkaaðilar. Því er ekki svo farið hér. Það erum við, almenningur, sem eigum orkuna, við seljum hana og við notum hana. Af hverju ættum við að færa okkur úr því formi sem við erum í dag yfir í þessa markaðsvæðingu og vera þar með að hugsa fyrst og fremst um hagsmuni Evrópu og Evrópuríkjanna fremur en um hagsmuni Íslands og Íslendinga?