149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:42]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Stundum er það svo að þegar stórt er spurt verður fátt um svör, en ég skal gera mitt besta.

Hvað veldur þessum sinnaskiptum? Ég held að það megi hverju mannsbarni vera ljóst að það eru einhverjir hagsmunaaðilar sem þrýsta mjög á um það að þessi þingsályktunartillaga fari í gegn. Ég held að það geti ekki verið neitt annað. Ég sé ekki hvað það er í tíma eða rúmi sem knýr svo á um að þetta verði klárað hér, að þetta þoli ekki frestun eða endurskoðun, að ríkisstjórnin geti ekki tekið málið aftur inn á sitt borð og ákveðið að það sé önnur leið sem hugsanlega væri hægt að skoða, nema það séu einhverjir undirliggjandi hagsmunir sem knýja á um að það verði klárað. Ég held að við hljótum að álykta sem svo fyrst þetta er rætt tímunum saman og stjórnarliðar og þeir sem eru fylgjandi orkupakkanum sjá ekki ástæðu til þess að svara nokkurri einustu spurningu eða blanda sér í umræðuna svo nokkru nemi sem við erum búnir að fara í og var ekki búið að taka áður. Ég held að það geti ekki verið neitt annað en að það á að keyra þetta í gegn að óskoðuðu máli. Ég verð að segja eins og er, (Forseti hringir.) ég get ekki séð hvað annað myndi knýja á um það.