149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:52]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir andsvarið. Ég get tekið undir orð hv. þingmanns. Ég sakna margra í umræðunni og það eru margir þingmenn sem hafa reyndar ekki látið svo lítið að halda eina ræðu um þetta mikilvæga mál. Hæstv. forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, er klárlega einn þeirra, mikill ræðuskörungur og vel máli farinn og gaman að hlusta á ræður hans. Annar aðili sem ég sakna er utanríkisráðherra sem við höfum séð afar lítið af, sem þó sá ástæðu til að snupra hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson í fyrri umr. þessarar þingsályktunartillögu fyrir að hafa ekki verið á staðnum, en þá var hann í erindagjörðum þingsins með utanríkismálanefnd erlendis.

Hvað er það sem veldur sinnaskiptum Vinstri grænna? Það er góð spurning. Þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem við sjáum sinnaskipti þeirra í mikilsverðum málum, eins og til að mynda þegar þau ákváðu að fylgja Samfylkingunni að máli og sækja um inngöngu í ESB. Það var nú eitthvað. Og það er þá til umhugsunar fyrir kjósendur þess flokks hvort öll prinsippmálin, grundvallaratriðin sem flokkurinn leggur til grundvallar séu eingöngu til þess að hanga á stólum í ríkisstjórn eða hvort þau séu til persónulegs framdráttar þeim sem í þeim sitja. Ég skal ekki segja og ætla ekki að væna fólk um það beint, en einhver er þrýstingurinn fyrst fólk getur fengið það af sér að halda svona á spöðunum.