149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:45]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir andsvarið. Varðandi Píratana held ég að þar skíni í gegn hið popúlíska eðli þess flokks, sem virðist ekki sleppa neinu tækifæri til að hoppa á vagn mála sem þau telja að séu líkleg til vinsælda og verði, eins og í því tiltekna máli sem við fjöllum um hér, flötur á að útmála þá sem eru öndverðrar skoðunar sem afturhaldssinna, einangrunarsinna, og ég veit ekki með hvaða fleiri snautlegu orðum efasemdamönnum um þessa innleiðingu hefur verið lýst. Ég held að það sé grundvallargreiningin sem liggur iðulega að baki ákvörðunar hjá þeim ágæta þingflokki um það hvorum megin hryggjar hann liggur í málum.

Varðandi Sjálfstæðisflokkinn treysti ég mér illa til að reyna að átta mig á hvað orsakar þennan viðsnúning. Við höfum einu sinni séð snúning í máli sem við vitum núna hvernig þróaðist og fór, snúning þar sem segja má að forysta flokks flokksins hafi farið á móti kjarnafylginu, eins og ég leyfi mér að skilgreina það, þó að það sé auðvitað ekki heilagur sannleikur. Kannski eru menn á einhverri svipaðri vegferð núna. Það er örugglega ekki viljandi. En hvernig þessi ákvörðun var tekin, treysti ég mér ekki til þess að ráða í, en ég er hræddur um að hún muni reynast óheilladrjúg.