149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:03]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Enn dýpkar umræðan. Enn bætast við fleiri púsl í þessa mynd sem við erum búin að vera að draga upp í þessari umræðu undanfarna klukkutíma og í fyrri viku og áður.

Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðu hans sem var innihaldsrík og hún vekur einmitt upp spurningar. Eins og fram kom í ræðu hv. þingmanns hefur sú aukna einkavæðing sem átt hefur sér stað í nágrannalöndunum skilað þeim sem eiga gríðarlegum hagnaði en rýrt gæði almennings. Og þá hlýtur maður að spyrja sig og ein af þeim spurningum sem við höfum borið upp í þessari umræðu ítrekað er: Þegar fleiri einkaaðilar eru farnir að hasla sér völl á orkumarkaði á Íslandi er líklegt að það myndist sá samkeppnisþrýstingur að menn geti farið að höggva í Landsvirkjun og heimta jafnvel uppskipti hennar? Er það raunhæfur kostur?

Nú langar mig til að spyrja hv. þingmann einmitt um þetta í ljósi þess sem hann var að segja okkur: Er líklegt að að þessum pakka samþykktum, að því gefnu að hér verði aukin samkeppni á raforkumarkaði, að hætta sé fyrir hendi á því að þeir aðilar sem koma inn á markaðinn muni heimta og fá Landsvirkjun skipt upp?