149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:10]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vona að forseti fyrirgefi mér það, en ég ætla að byrja, af því ég ákvað að eyða ekki tíma okkar í fundarstjórn, á að fá að gera athugasemd við orð forseta þar sem hann las upp langan titil þess máls sem nú er til umræðu og bað okkur þingmenn um að halda okkur við umræðuefnið. Auðvitað er það hluti af þeirri umræðu sem hér á sér stað að fjalla um það með hvaða hætti viðsnúningur hefur orðið á afstöðu þeirra flokka sem leiða málið áfram. En það var auðvitað ekki það sem ég ætlaði að ræða við Birgi Þórarinsson, en þetta sparaði töluverðan tíma í fundarstjórn og gefur okkur tækifæri til að ræða málið frekar hér í pontu.

En hv. þm. Birgi Þórarinsson — ég þakka honum kærlega fyrir ræðuna — langar til að spyrja: Það er sjónarmið, sem er alþekkt og líka á meðal þeirra sem eru áfram um aukinn einkarekstur og þar fram eftir götunum, að í byrjun skuli fara varlega á sviðum þar sem raunveruleg samkeppni er ekki til staðar og markaður býður ekki upp á að raunveruleg samkeppni byggist upp.

Hvernig horfir það við hv. þingmanni að á okkar, í samhengi hlutanna, örmarkaði ætli menn að innleiða þetta regluverk þriðja orkupakka Evrópusambandsins, hafandi í huga að innleiðing annars pakkans var með þeim hætti að menn gengu meira að segja svo langt að lækka viðmiðunarmörk. Í einu tilviki var markaður með innan við 100.000 manns, það viðmið var fært niður í 10.000 hér á Íslandi og þar fram eftir götunum. Heldur hv. þingmaður að verið sé að troða hinum íslenska markaði í skó sem passa ekki á hann?