149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:27]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hann nefnir þau tvö atriði sem koma helst upp í hugann þegar um þetta mál er fjallað. Annars vegar er það hinn mikli fjöldi fyrirvara, að ég held átta talsins, sem Norðmenn og sérstaklega norski verkamannaflokkurinn beitti sér fyrir og svo hins vegar samanburðurinn við kjötmálið.

Það liggur einhvern veginn þannig í þessu máli að það er eins og enginn hafi lagt sig fram við að skýra með hvaða hætti sú aðferð sem hér er höfð uppi með því að hafa uppi það sem kallað er lagalegur fyrirvari — hann hefur að vísu ekki fundist eða öllu heldur virtist hann hafa gufað upp í þeirri ræðu sem ég vísaði til í fyrra andsvari — það hefur enginn útskýrt hvernig slíkur fyrirvari, ef hann væri fyrir hendi á annað borð, myndi falla að evrópska sáttmálanum um efnahagssvæðið, vegna þess að sá sáttmáli er alveg skýr í þeim efnum. Hann gerir ráð fyrir því að á vettvangi sameiginlegu nefndarinnar semji menn um, segjum undanþágur og annað af því tagi, og síðan ef koma upp vandamál, eins og er fyrir hendi á Íslandi núna vegna þess að það er mikil ólga í þessu samfélagi og ákveðin vandamál vegna þess að fólk hefur ekki áhuga á því að sjá þennan orkupakka innleiddan, þá er sá farvegur fyrir hendi sem er skilgreindur í 102. og 103. gr. samningsins. Þetta liggur allt saman fyrir. Þetta er allt skýrt. Þetta er samningsbundið. Þetta eru skýr ákvæði. En það hefur enginn skýrt hvernig hinn svokallaði lagalegi fyrirvari, ef hann á annað borð fyrirfinnst og ef hann skyldi finnast einhvern tímann, fellur að því regluverki öllu saman, þar á meðal samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.