149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Í gær lögðu þingmenn Viðreisnar fram frumvarp um róttækar breytingar á lögum um erfðafjárskatt. Núgildandi lög gera ráð fyrir að af dánarbúi sé greiddur 10% skattur af hreinni eign búsins, að frádregnum 1,5 milljónum króna. Það sem eftir stendur kemur til skipta. Með frumvarpinu er lagt til að horfið verði frá því að líta á dánarbú manns sem andlag erfðafjárskatts. Þess í stað yrði horft til arfs hvers erfingja um sig sem andlags erfðafjárskattsins.

Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að skattfrelsi miðist framvegis við arfshluta hvers og eins erfingja. Þar með verða skatttekjur ríkisins vegna hvers dánarbús, háðar fjölda erfingja búsins og arfshluta þeirra. Þetta er grundvallarbreyting. Þá er gert ráð fyrir að skattþrep verði þrjú, 10%, 15% og 20%, og ræðst hlutfallið af fjárhæð arfsins. Af fyrstu 15 milljónunum greiðast 10%, af næstu 15 milljónum 15%, og af þeim hluta arðs sem er umfram 30 milljónir greiðast 20%. Þrátt fyrir þessi skatthlutföll skal þó enginn greiða erfðaskatt af fyrstu 6,5 milljónum síns arfshluta. Þessi regla leiðir til þess að stór hluti erfingja mun engan erfðaskatt greiða og lækka hjá talsverðum hluta en mun hins vegar hækka hjá þeim sem mest erfa.

Enginn á tilkall til þess að sá sem hann stendur til arfs eftirláti eftir sig eignir í dánarbúi sem komi til skipta milli erfingja. Í lifanda lífi er hverjum og einum frjáls ráðstöfun eigna sinna í samræmi við lög og reglur. Arfur verður því ekki til fyrr en bú hefur verið gert upp. Að vissu leyti má segja að tilviljun ráði hvað kemur til skipta og eykur þannig eignir og tekjumöguleika erfingja. Það er eðlilegt að þeir erfingjar sem mest fá greiði hlutfallslega mest í skatt. Breytingin stuðlar líka að því að draga úr auðsöfnun á fárra manna hendur. Með því að persónubinda afsláttinn fá fleiri í sinn hlut arf án skattheimtu. Þannig dreifist arfur betur til einstaklinga í samfélaginu um leið og erfðafjárskattur lækkar sem kemur í hlut ríkisins við skipti flestra dánarbúa.