149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að ég sé að þokast nær því að átta mig á afstöðu þingmanna Miðflokksins til þriðja orkupakkans. Ég held að þeir séu á móti honum. Ég held að þeir telji að í útlöndum sé ekkert skjól nema náttúrlega skattaskjól.

Umræðan um þriðja orkupakkann er knúin áfram af andstæðingum Evrópusambandsins. Sumir þeirra telja að hægt sé að semja á ný um þetta regluverk, ekki síst þeir sem á sínum tíma létu sjálfir alveg undir höfuð leggjast að gera það þegar þeir voru sjálfir ráðherrar. Aðrir vilja ganga svo langt að segja skilið við EES og sjá fyrir sér óljósar hugmyndir um tvíhliða samband við Evrópusambandið þar sem Íslendingar nytu áfram fríðindanna af tengslunum en losnuðu við skyldurnar. Þetta er draumurinn um allt fyrir ekkert. Loks eru þeir sem vilja segja skilið við þetta allt saman undir kjörorðinu: Ísland úr EFTA – kjörin burt.

Sjálfur lít ég á Evrópusambandið sem vettvang jafningja, viðleitni fulltrúa almannavaldsins, stjórnmálamanna og stjórnsýslunnar til að koma böndum á fjármagnið, setja því skorður og koma á regluverki sem tryggir samkeppni og hindri einokun með hag neytenda, almennings, að leiðarljósi.

Víglínan í Evrópuumræðunni hefur færst. Það er orðinn raunhæfur kostur í augum margra að segja skilið við EES og sjá svo bara til. Rökin eru náttúrlega ekki margbrotin. Þau eru: Þetta sögðuð þið líka um Icesave. Þeir vilja hætta ríkum þjóðarhagsmunum sem við höfum af veru okkar í EES. Þetta er áhættuhegðun af auðmannatagi.

Sjálfum finnst mér að við eigum að ganga alla leið inn í Evrópusambandið. (Forseti hringir.) Þar hafa Íslendingar margt fram að færa. Þar gætu þeir haft raunveruleg áhrif í stað þess að sitja álengdar og vera á móti (Forseti hringir.) tilskipunum og móti reglugerðum í trausti þess að þær fari samt í gegn.