149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það er oft illa farið með staðreyndir í almennri umræðu. Bæði á Íslandi og annars staðar hefur verið að færast í aukana að stjórnmálamenn og ýmsir aðrir segi hluti sem eru ótvírætt ósannir. Ég er ekki að tala um skoðanir heldur fullyrðingar þar sem hægt er að kanna sannleiksgildi þeirra með slíkum hætti að það fer ekki á milli mála. Þetta fyrirbæri hefur verið kallað falsfréttir þrátt fyrir að ósannindin eigi sér ekki síður uppruna innan stjórnmálanna.

Áður fyrr hafði fólk annað orð fyrir vísvitandi ósannindi og það var orðið lygar. Umburðarlyndi fyrir lygum er takmarkað en fólki var refsað áður fyrr fyrir lygar með mannorðsmissi eða útskúfun. Það voru einfaldari tímar þegar heildarmagn upplýsinga sem samfélög höfðu yfir að búa var takmarkað og auðveldara að kanna sannleiksgildi einstakra fullyrðinga. Í dag þarf fólk að fást við slíkt fannfergi af upplýsingum að enginn gæti nokkurn tímann komist yfir að sannreyna það allt saman, jafnvel þótt hann gerði ekki neitt annað.

Það sem flækir málið síðan er að okkar blessuðu heilar eru mun móttækilegri fyrir því sem hljómar vel og staðfestir trú okkar en því sem satt er, sérstaklega ef sannleikurinn stríðir gegn sjálfsvitund okkar. Þetta tvennt, upplýsingafarganið og mannlegt eðli, hafa nú niðurrifsöfl í samfélaginu eignað sér til að eitra fyrir umræðum og hrifsa til sín völd.

Það er von að fólk spyrji hvað skuli gera í því. Það að leiðrétta rangfærslurnar er gagnslaust þar sem þeim mætir „nei, þú“-andsvörum og ásökunum um hroka. Að hunsa ósannindin skapar þá ímynd að allir séu sammála og að banna lygar skerðir tjáningarfrelsi. Það er í rauninni búið að vopnavæða tungumálið gegn samfélaginu þannig að eftir stendur viðsjárverð tómhyggja.

Eftir margra ára pirring á því verð ég að viðurkenna að ég er mát. Ég veit ekki hvað á að gera, en það eru fleiri. Nýlega hrinu mjólkurhristingsárása á stjórnmálamenn öfgahersins verður að skilja í því ljósi. Þegar grunnreglur samfélagsins eru brotnar á bak aftur á þann hátt að enginn siðmenntuð leið er til að sporna við því skal engan undra þegar pirringurinn brýst út (Forseti hringir.) með ósiðmenntuðum hætti. Við verðum að finna betri leið gegn falsfréttum og ósannindum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)