149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:20]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er heppilegt að hv. þingmaður fer aftur í sömu sálma og hann fór yfir í andsvari við þann sem hér stendur í gærkvöldi þegar við ræddum þetta vegna þess að mig langaði einmitt að rukka hv. þingmann aftur um svar. Í spurningu minni til hv. þingmanns í gær spurði ég hvort það væru einhverjir sérfræðingar sem vildu meina að málið stangaðist á við stjórnarskrá, að það væri nokkur hætta á að það stangaðist á við stjórnarskrá eins og það er núna, eins og það er lagt fram. Hv. þingmaður nefndi ranglega þá tvo hv. fræðimenn sem hafa verið nefndir hérna oftast, Stefán Má Stefánsson og Friðrik Árna Friðriksson Hirst, en hvorugur er þeirrar skoðunar að það sé einhver vafi á að þetta mál, eins og það er lagt fram núna, standist stjórnarskrá. Það er algerlega augljóst að þeirra mati. Mér þætti vænt um ef hv. þingmenn Miðflokksins færu að láta þessa ágætu menn njóta sannmælis hér í pontu og hættu að gera þeim upp skoðanir sem þeir hafa gert algerlega skýrt að þeir hafa ekki. Það er enginn vafi í hugum þessara fræðimanna um að þetta mál standist stjórnarskrá eins og það er lagt fram núna.

Hv. þingmaður svaraði hins vegar spurningu minni með öðru nafni, nefndi Eyjólf Ármannsson, lögfræðing hjá LLM, og vitnaði í grein hans í Morgunblaðinu og vitnaði síðan aftur í hana í ræðu sinni áðan Ég tók eftir því að hv. fræðimaður Eyjólfur Ármannsson hafði sent inn umsögn upp á níu blaðsíður og ég sagði í svari mínu í gær að ég myndi kynna mér þessa umsögn sem ég hef nú gert. Ég finn ekki í henni þá fullyrðingu að málið stangist á við stjórnarskrá eins og það er lagt fram núna. Vissulega hefði það gert það hefði það ekki verið lagt fram með þessum fyrirvörum. Þvert á móti sýnist mér málflutningurinn í umsögninni byggja á því að málið sé ekki innleitt í íslenskan rétt með fullnægjandi hætti og þar af leiðandi komi hættan í málið. Hv. fræðimaður Eyjólfur Ármannsson er mjög eindregið á móti málinu og tínir til heilmikið af rökum, að því er hann vill meina en eru að mínu mati mikið til misskilningur, en samt sem áður tínir til ýmis rök gegn málinu. (Forseti hringir.) En hvað varðar þetta einstaka atriði, stjórnarskrárlega samhæfingu við málið, finn ég enn þá ekki (Forseti hringir.) fræðimann sem er til í að segja að málið eins og það stendur, eins og það liggur fyrir núna (Forseti hringir.) með þessum fyrirvörum, stangist á við stjórnarskrá, (Forseti hringir.) ég finn það hvorki í áliti hv. fræðimanns Eyjólfs Ármannssonar né annars staðar.