149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:11]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (um fundarstjórn):

(Forseti (JÞÓ): Forseti hefur fengið þær upplýsingar að fyrst orðum er ekki beint sérstaklega til einstaks þingmanns heyri það betur undir liðinn um fundarstjórn forseta, ef þingmaður er tilbúinn til að sætta sig við það.)

Hæstv. forseti. Já, ég er tilbúinn að sætta mig við það.

Ég kem í ræðustól til að bera af mér sakir. Ég hef reynt af fremsta megni og öllu megni að halda þessari umræðu á málefnalegum nótum, halda henni þannig að við séum að ræða efnislega um málið. Ég hef reynt að halda mig við að fylgja þeim gögnum sem lögð voru til grundvallar þingsályktunartillögunni og svo öðrum gögnum, sem eru ýmist umsagnir eða athugasemdir aðila sem málið gæti varðað, sem og innsendar greinar um þetta mál.

Það getur vel verið að ég sé ekki nógu skýr í því sem ég set fram en ég hafna því alfarið að það sem ég hef sagt og borið fram hér sé á einhvern hátt óheiðarlegt, herra forseti.