149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:24]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir hans ræðu. Ég hjó eftir því að hann talaði um „verulegan vafa“ og var að vitna til orða þeirra fræðimanna sem hér eru mjög til umræðu. Hann talaði um að það gæti haft afleiðingar er varðaði skipulag, ráðstöfun og nýtingu og þá á síðari stigum. Ég velti fyrir mér: Hvað eigum við eftir að sjá? Telur hv. þingmaður að ekki sé allt komið í ljós? Ég er mikið að velta fyrir mér þessum fyrirhuguðu breytingum, eða alla vega drögum að breytingum, á stjórnarskrá sem liggja nú inni á samráðsgáttinni og þess vegna er ég að velta þessu fyrir mér.

Í greinargerð fræðimannanna Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts, segir með leyfi forseta:

„Engin heimild er til þess að taka í lög ákvæði sem ekki fá staðist íslenska stjórnarskrá þó að svo standi á að ekki reyni á umrædd lagaákvæði í svipinn.“

Þarna er eru þeir að undirstrika það sem hv. þingmaður sagði áðan. Ég væri til í að fá skýringu á þessu.