149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:26]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur fyrir andsvarið. Það er svo fjöldamargt sem er áhugavert í þessari álitsgerð. Hv. þingmaður vísaði til þess sem ég dró hér saman, að þeir tefla því fram að með innleiðingu þessa orkupakka fái erlendur aðili aðstöðu til að hafa a.m.k. óbein áhrif, eins og það er orðað, á skipulag, ráðstöfun og nýtingu. Taki menn eftir orðunum, þau eru greinilega valin af kostgæfni: áhrif á skipulag, ráðstöfun og nýtingu mikilvægrar orkuauðlindar þjóðarinnar. Ef þetta er ekki viðvörun þá veit ég ekki hvað. En þeir telja ástæðu til að viðhafa enn háværari viðvörun. Það gera höfundarnir, með leyfi forseta, þegar þeir fjalla um þetta valdframsal sem lýtur að skipulagi og ráðstöfun á mikilvægri orkuauðlind þjóðarinnar, segja:

„Þessu má, með einhverri einföldun, líkja við að ESA væri falið vald til að ákveða leyfilegan hámarksafla ríkja á sviði sjávarútvegs.“

Menn átta sig á því að slíkt er algerlega óhugsandi í hugum Íslendinga. Ég tel að hér séu höfundarnir að minna á að orkuauðlindirnar eru auðlind rétt eins og sjávarauðlindin og það kemur ekki til greina að Íslendingar framselji vald og fullveldisrétt þjóðarinnar yfir þeim auðlindum.