149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:43]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir hans góðu ræðu eins og vænta mátti þegar hann á í hlut. Það stendur þannig á með hv. þingmann að hann hefur að baki nám erlendis í alþjóðlegum samskiptum og þess vegna þykir mér hlýða að inna hann eftir áliti hans á því sem nokkuð hefur borið á í umræðunni, að það sé ekki fær leið að Íslendingar leiti eftir sáttameðferð vegna hinna sérstöku aðstæðna hér. Það stendur þannig á hjá okkur að við erum ótengd við raforkukerfi Evrópu og með sama hætti og ekki er farið fram á það við okkur að við innleiðum gerðir sem lúta að jarðgasi vegna þess að þær eigi ekki við spyr maður sig af hverju sú leið var ekki farin og af hverju sú leið er ekki fær að fara ósköp einfaldlega fram á það á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem er auðvitað hinn rétti vettvangur og í samræmi við EES-sáttmálann sjálfan, að undanþiggja landið frá þessum ákvæðum sem lúta að sæstrengnum og þessari stofnun. En þá er gefið í skyn að samningurinn kunni að reynast vera í uppnámi og þeir miklu hagsmunir sem við höfum af þessu samstarfi — að við myndum þurfa að þola einhverjar afleiðingar vegna þess að við værum að leita eftir ákveðinni framkvæmd með vísan til ákveðinna ákvæða í samningnum sjálfum.