149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:40]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir andsvarið. Já, mér finnst svolítið gott að þessi umræða dýpkar og dýpkar og nú erum við að koma að svolítið mikilvægum punkti þegar við ræðum að við munum sjálfsagt á einhverjum tímapunkti þurfa að horfa fram á málshöfðun. Ég átti áhugavert samtal við starfsmann utanríkisráðuneytisins í gær sem fullyrti við mig að löglærðir fulltrúar teldu afar ólíklegt — auðvitað væri ekki hægt að fullyrða það — að vegna þessarar innleiðingar myndum við uppskera málshöfðun. Vegna þess að algengustu málshöfðanirnar sem við horfumst í augu við eru málshöfðanir vegna rangrar innleiðingar eins og í hráakjötsmálinu. Við innleiddum á rangan hátt. Við settum lagalegan fyrirvara sem svo auðvitað mátti ekki gera og hann hélt ekki og við vorum gerð afturreka með það.

En af hverju skyldi þessi ágæti starfsmaður segja að það væri mjög ólíklegt að við lentum í málshöfðun? Jú, sennilega vegna þess að við innleiðum gerðina í heild sinni samkvæmt tilskipuninni. Við innleiðum hana bara. Þessir fyrirvarar eru til heimabrúks, hafa akkúrat ekkert gildi, akkúrat ekki neitt. Púslin koma hér og raðast upp fyrir okkur. Það er orðið ljóst að þetta hefur ekkert gildi. Ég skal éta hatt minn og staf ef þetta mál er ekki svona vaxið. Ég verð að segja og ég hef náttúrlega staðið hér áður og sagt að ég skilji það trauðla af hverju menn eru að fara þessa leið en ég skil það núna, menn vilja bara fara inn í málið, taka orkupakkann inn með haus og hala og kyngja honum.