149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:43]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þrátt fyrir þetta þakka hæstv. forseta fyrir þá tilraun sem hér var gerð því að mér þótti prýðisbragur á henni, til að tryggja samfellu í framsetningu. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni fyrir prýðisræðu og reyndar sérstaklega góða, kannski að hluta til af því að hún fékk að koma fram svona heildstætt í staðinn fyrir að vera slitin í sundur.

En mér finnst skína í gegn hjá þingmanninum að hann, eftir að hafa sett þetta efnislega fram, skynji að hinir meintu fyrirvarar séu jafnvel ennú meira til heimabrúks en við höfðum upplifað í byrjun umræðunnar þegar þessi skýra leið sem liggur fyrir og er fær er sett fram með þeim hætti sem hv. þingmaður gerði og síðan þegar tekið er tillit til þess hvernig málið er rekið.

Til er borðspil þar sem eitt af kortunum sem menn gátu dregið ef þeir lentu á vondum stað hét „Get out of jail — freecard“, minnir mig, með leyfi forseta. (Gripið fram í: Þú færð engan 2000 kall?) — Einmitt, þú færð engan 2000 kall. Upplifir hv. þingmaður að fyrirvararnir séu fyrir ríkisstjórnarflokkanna einhvers lags „Get out of jail — freecard“ sem er ekki meiri meining í en að vera fyrst og fremst til þess að komast í gegnum næstu hindrun, sem er að innleiða þetta að fullu og án fyrirvara, reglugerðir 713 og 714?