149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:51]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég sagði frá því í þarsíðustu ræðu minni að ég ætlaði að taka næstu ræður í það að reyna að ramma dálítið inn spurningar sem tengjast því að horfa fram á veginn og spyrja: Hvað svo? að þessu regluverki innleiddu.

Það er atriði í málinu sem mig langar til að vekja athygli á sem fjallað var um í úttekt Morgunblaðsins þann 18. maí síðastliðinn sem snýr að EES-reglum, regluverki sem uppáleggur þjóðum að fara í útboð á nýtingarrétti. Ég ætla að leyfa mér að vitna stuttlega í þá úttekt Morgunblaðsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„Nýtt nýtingarform vatnsfalla í eigu ríkis og sveitarfélaga til raforkuframleiðslu getur haft í för með sér að þar til gerðir nýtingarsamningar fari í útboð þegar samningstíma lýkur. […] Hafa slíkir samningar þegar verið gerðir við einkarekin félög, en samningarnir munu í framtíðinni einnig vera gerðir um nýtingarrétt opinberra raforkufélaga.“

Úttektin heldur áfram:

„Árið 2016 barst íslenskum stjórnvöldum tilkynning frá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, um að þeim bæri að setja lög sem krefjast þess að greitt sé markaðsverð fyrir nýtingarrétt á náttúruauðlinda í almannaeigu með það fyrir augum að framleiða rafmagn. Var jafnframt kveðið á um að allir gildandi samningar yrðu endurskoðaðir þannig að það sem eftir væri af samningstíma yrðu raforkufyrirtæki að greiða fyrir nýtingarréttinn.“

Við þetta geri ég, hið minnsta, engar athugasemdir. Auðvitað er eðlilegt að fyrirtæki, hvort sem um er að ræða einkafyrirtæki eða opinber fyrirtæki, greiði fyrir þann nýtingarrétt af auðlindum sem þau nota síðan til að skapa verðmæti fyrir sjálf sig.

En þá kemur kannski að því atriði sem ég vildi sérstaklega vekja athygli á og er þá vitnað aftur í úttekt Morgunblaðsins, með leyfi forseta. Þetta snýr að skyldu til útboðs og hefst þá lesturinn:

„Þegar nýtingarsamningarnir runnu sitt skeið varð þó deila milli fleiri aðildarríkja og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um hvernig bæri að endurnýja umrædda samninga og tilkynnti framkvæmdastjórnin þann 7. mars síðastliðinn að hún hefði höfðað samningsbrotamál gegn Austurríki, Frakklandi, Þýskalandi, Póllandi, Portúgal, Svíþjóð, Bretlandi og Ítalíu fyrir að hafa ekki farið í opin útboð á nýtingarrétti vatnsfalla og tilheyrandi vatnsaflsvirkjunum.“ — Ég ætla að endurtaka: „… fyrir að hafa ekki farið í opin útboð á nýtingarrétti vatnsfalla …“

Svo haldið sé áfram með úttekt Morgunblaðsins, með leyfi forseta:

„Samningsbrotamálið sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur höfðað byggist á þjónustutilskipuninni frá 2006 annars vegar og reglugerð um opinber innkaup frá 2014 hins vegar. […]

Leiða má því líkur að því að gildandi samningar um nýtingu vatnsafls við opinber fyrirtæki á borð við Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur verði boðnir út þegar samningstími þeirra rennur út.“

Þessi kærumál eru vissulega grundvölluð á öðru en hinum svokallaða þriðja orkupakka sem við fjöllum um núna. En ég vildi vekja athygli á þessu; stofnanir Evrópusambandsins hafa býsna ríka tilhneigingu til þess að seilast eins langt og þær telja sér fært til að stýra innri markaðsmálum þjóða eins og þarna kemur fram.

Ég spyr: Dettur einhverjum í hug að sambærileg nálgun yrði ekki uppi á Íslandi ef við opnum greiðari leið stofnana Evrópusambandsins að orkumarkaðsmálum hér innan lands en þegar er orðið? Ég held að það væri áhugavert að heyra frá stuðningsmönnum, áhugamönnum um innleiðingu þessara reglna, hvernig þeir sjái fyrir sér svarið við þessari spurningu: Og hvað svo? varðandi þessar kröfur um útboð nýtingarréttar. Þannig að allir aðilar komi að með þeim hætti sem hér er lýst. Eru engar áhyggjur sem vakna hjá helstu stuðningsmönnum málsins út af svona framgöngu stofnana Evrópusambandsins?