149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:53]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, það má sannarlega taka undir það en ég bendi hv. þingmanni líka á hversu mikill munur er á því hvernig þeir tala sá hv. þingmaður sem hann nefndi, Steingrímur J. Sigfússon, núverandi forseti Alþingis, og fyrrum bandamenn hans, samherjar í Alþýðubandalaginu og Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, menn eins og Ögmundur Jónasson og Hjörleifur Guttormsson. Nú er munurinn sá að þeir eru utan ríkisstjórnar, þessir tveir síðarnefndu, en ég ætla samt ekki að halda því fram að væru þeir hluti ríkisstjórnarinnar myndu þeir vilja styðja þetta mál.

Ég leyfi mér að ætla það, í ljósi þess hversu öflugur rökstuðningur þeirra er og byggður á hugsjónum Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, sem þeir vísa mjög ítrekað til, að þeir hefðu ekki látið þetta yfir sig ganga. Ég leyfi mér að gera ráð fyrir því að væru þessir menn — og raunar svo miklu fleiri, fyrrverandi stjórnmálamenn, sem þora að tjá sig með opinskáum hætti um þetta mál — í ríkisstjórn nú, myndu þeir ekki láta þetta viðgangast með þessum hætti.

Af því að Ögmundur Jónasson er nefndur sérstaklega þá er kannski ekki úr vegi að rifja það upp að hann sannaði það á sínum tíma að hann léti ekki allt yfir sig ganga þrátt fyrir að hann væri í ríkisstjórn og vék meira að segja um tíma úr ríkisstjórn af þeim sökum. Þá var leiðinlegt að heyra ýmsa félaga hans halda því fram, stilla því þannig upp, að Ögmundur Jónasson hefði vikið úr ríkisstjórn af því að hann hefði ekki treyst sér í nauðsynlegt aðhald í heilbrigðismálum.

Við vissum nú, held ég, flestir þingmenn, miklu betur á þeim tíma og vissum að þetta var byggt á prinsippafstöðu og það væri óskandi að fleiri núverandi ráðherrar nálguðust málin á sama hátt.