149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:34]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Já, ætlunin var að koma í veg fyrir sölu til einkaaðila. Það er ekkert skrýtið að sporin hræði þegar við höfum þessi dæmi ljóslifandi fyrir framan okkur. Á sama tíma er afar áhugavert að horfa til þess og kannski mjög hollt að horfa til þess þegar við höfum þó gert hlutina rétt. Ég kom inn á það áðan í andsvari við hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson að í fylgiskjali IV við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið gerðu Íslendingar sérstakan samning þar sem rætt er um fiskveiðar og fiskvinnslu sem varðar eina af okkar stærstu auðlindum. Þar höfðum við vit á því af því að gríðarlega mikilvægt mál var undir.

Ég er þeirrar skoðunar að í þessu máli sé auðlindin undir. Þeir sem hafa verið hér í þingsal og fylgst með umræðunni og hafa gefið gaum að þeim ræðum sem haldnar hafa verið um m.a. uppskiptingu orkufyrirtækja og skyldu um opinber og opin útboð í einkavæðingu og einkavæðingarferli á nýtingarrétti á auðlindum, sjá og geta lesið það eins og opna bók að þetta er það sem koma skal. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni að það er vissulega svo að þetta mun verða staðan innan skamms tíma og í mjög fyrirsjáanlegri framtíð ef við bregðumst ekki við.

Mig langar til að biðja hv. þingmann um að koma með endurgjöf á það (Forseti hringir.) hvort það væri ekki rétt að girða sig nú vel í brók með belti og axlabönd og gera þetta almennilega eins og við gerðum (Forseti hringir.) varðandi fiskveiðar og fiskvinnslu.