149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar að halda aðeins áfram með vangaveltur varðandi hinn svokallaða fjórða orkupakka í framhaldi af spurningum eða því sem við vorum að velta fyrir okkur, ég og hv. þm. Jón Þór Þorvaldsson. Málið snýst að sjálfsögðu um það að nú þegar er ljóst að hinn svokallaði fjórði orkupakkinn, eða hvað við köllum hann, liggur fyrir. Það er að vísu ekki búið að ganga formlega frá honum að öllu leyti innan Evrópusambandsins. En finna má á netinu plagg sem inniheldur líklega um 1.000 blaðsíður af lýsingum á því hvað þessi pakki inniheldur.

Við höfum líka haft í höndunum skýrslu eða álit sem unnið var í Noregi um þennan fjórða orkupakka. Ég beindi ákveðnum spurningum til utanríkisráðuneytisins um fjórða orkupakkann og svörin við þeim spurningum eru frekar almenns eðlis. Þetta eru sex, sjö spurningar, m.a. um hvaða helstu breytingar séu í fjórða orkupakkanum, hvaða áhrif þær hafi á íslenskan raforkumarkað. Ég hefði gjarnan viljað að svarað væri nánar um efnisinnihald þessa pakka því það er algerlega ljóst að innihald hans hefur legið fyrir í töluverðan tíma því að árið 2016 er hann í rauninni lagður fram eða vinna hafin við hann. Þar af leiðandi ætti sú stefna sem er í þeim pakka að vera ljós þeim sem hafa kynnt sér hana. Enda kemur fram í svari utanríkisráðuneytisins að sérstakur starfshópur hefur verið settur af stað við hagsmunagæslu og samráð varðandi innleiðingu fjórðu orkupakkans. Við hljótum því að spyrja: Hvers vegna er ekki hægt að upplýsa okkur þingmenn almennilega um hvað er í þessum fjórða orkupakka? Hvaða skref eru tekin þar umfram það sem er í þriðja orkupakkanum sem við erum núna að fjalla um? Hvers vegna eru þessir pakkar ekki teknir saman og horft á þá sem eina heild og þannig komist að því hvort heildarniðurstöðurnar úr þessum tveimur pökkum, þrjú og fjögur, séu þess eðlis að við ættum að staldra við núna?

Við eigum að senda málið aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar og fá þær undanþágur eða leitast eftir þeim sem við mögulega getum.

Þetta eru svolítið sérstök vinnubrögð, finnst mér, í ljósi þess að núna er fjórði orkupakkinn í kynningu. Þar af leiðandi hljóta þingmenn — ég velti fyrir mér hvort þingmenn stjórnarmeirihlutans séu búnir að fá einhverja kynningu á fjórða orkupakkanum fyrst þeir eru það áfjáðir í að innleiða þann þriðja. Ég ætla rétt að vona að það sé ekki slíkt kæruleysi í gangi að menn hafi ekki áhuga á að vita hvað er í þeirri viðbót sem þar kemur.

Miðað við norsku skýrsluna sem unnin var um þennan fjórða pakka er alveg ljóst að verið er að grípa áfram inn í sjálfsákvörðunarrétt ríkjanna um það hvernig verður farið með orkuna. Það er ekkert sem hefur komið fram — ég held reyndar að enginn hafi haldið því fram að Evrópusambandið ætli sér að eignast með einhverjum hætti yfirráð eða ná yfirráðum yfir jarðhitanum eða fallvötnunum — en hvernig þau eru nýtt, í hvað orkan fer, á hvaða verði orkan er seld, hvert hún fer og annað, er alveg augljóst að það er stefna Evrópusambandsins að hinn sameiginlegi EES-markaður verði ein samfella þegar að þessu kemur.

Í norsku skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Í reglugerðinni er mælt fyrir um frekari ákvæði sem skiptir máli fyrir viðskipti yfir landamæri. Markmiðið er að tryggja meginregluna um vel samþættan raforkumarkað. Þetta þýðir að allir þátttakendur í sameiginlega orkuneti ESB verða að hafa jafnan aðgang að mörkuðum. Enn fremur er almennt ákvæði um flutningsgetu og flöskuhálsstjórnun. Þar segir m.a. að innflutningur og útflutningur á raforku megi ekki vera takmarkaður af innlendum þáttum.“

Er hægt að líta svo á að þessir innlendu þættir séu t.d. innviðir eða uppbygging raforkukerfisins?