149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:38]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þótti ákaflega áhugavert að heyra hv. þingmann nefna sambandið við fjórða orkupakkann og þá staðreynd að því hafi öllu, að því er virðist, verið sópað undir teppið þrátt fyrir að fyrir liggi 1.000 blaðsíðna skýrsla um innihald þess pakka. Þetta er sérstaklega áhugavert og í raun undarlegt í ljósi þess að einn helsti rökstuðningur stuðningsmanna þriðja orkupakkans fyrir innleiðingunni nú er að vísa í svokallaða orkupakka tvö og eitt og að þetta sé eðlilegt ef ekki óhjákvæmilegt framhald af innleiðingu þeirra pakka.

Þá skyldi maður ætla að þegar verið er að berjast fyrir innleiðingu fjórða pakkans sem lið í einhverju heildarferli á innleiðingu slíkra pakka myndu menn upplýsa Alþingi um hvers sé að vænta í næsta skrefi, hvað felist í orkupakka fjögur og þeirri innleiðingu á honum sem við megum þó væntanlega gera ráð fyrir að núverandi ríkisstjórn muni rökstyðja á sama hátt og hún rökstyður nú innleiðingu þriðja pakkans. Ég geri ekki ráð fyrir að hv. þingmaður hafi haft tækifæri til að lesa allar þær 1.000 blaðsíður, ef til vill gefst tækifæri til þess áður en umræðu lýkur. Miðað við það sem hv. þingmaður hefur séð, hvernig í ósköpunum stendur á því að núverandi ríkisstjórn virðist vilja þagga niður tilvist fjórða orkupakkans og þá staðreynd að hann og svo væntanlega sá fimmti séu væntanlegir innan skamms?