149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Ég held að það sé alveg ljóst að það er ekki í mínum verkahring eða ég hef ekki getu til að útskýra hvers vegna í ósköpunum ríkisstjórnin eða stjórnarflokkarnir hafa ekki áhuga á að leggja megininnihald þessa fjórða orkupakka á borðið fyrir þingmenn.

Mér finnst í rauninni mjög sérstakt ef grandvarir þingmenn stjórnarmeirihlutans ætla að láta þennan þriðja orkupakka fara hér í gegn með þá vitneskju að fyrir liggur plagg sem kallast fjórði orkupakkinn, reyndar stundum kallaður vetrarpakkinn, þar sem útlistuð eru næstu skref varðandi þennan orkumarkað sem Evrópusambandið ætlar að gera einn og samleitan eins og þeir kalla þetta. Ég held því að það sé í rauninni bara skynsamlegt að óska eftir því að gert verði hlé á þessari umræðu þannig að iðnaðarráðherra geti útskýrt og lagt fyrir alþingismenn, bæði stjórn og stjórnarandstöðu, hvað felst í þessum fjórða orkupakka.

Miðað við þær lýsingar sem ég vitnaði í áðan úr norsku skýrslunni — nú er það kannski það eina plagg sem við höfum í höndunum núna eða það sem maður hefur náð að kynna sér lítillega — er að þarna er verið að gera býsna stórar breytingar á að ná tökum á því hvernig raforkan er flutt yfir landamæri, hvernig raforkan er flutt innan ríkja, hvaða kröfur eru gerðar til innviða og þess háttar. Ég held því að mjög mikilvægt sé að við stöndum býsna fast á því og höldum því til streitu hér í þessum ræðustól að varpað verði einhverju ljósi á hvað í fjórða orkupakkanum felst áður en næstu skref verða tekin.