149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:45]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir ágæta ræðu. Þarna erum við að nálgast það að einhverju marki sem ég hef kallað: Og hvað svo? Hvað tekur við að innleiddum þriðja orkupakka? Það er þannig að þegar formaður utanríkismálanefndar segir í viðtali að það sé í sjálfu sér ekki annað hægt en að innleiða orkupakka þrjú af því að orkupakki tvö falli úr gildi við innleiðinguna, ef ég skildi formanninn rétt — ég held ég sé ekki að leggja henni efnislega orð í munn, þ.e. hv. formanni utanríkismálanefndar — þá hlýtur að blasa við okkur sú spurning: Erum við komin á einhvers lags færiband, í einhvern einstefnuloka þar sem næst mæta embættismennirnir og flagga framan í okkur pakka fjögur af því að við innleiddum pakka þrjú svo prýðilega vel með hefðbundnum hætti án allra fyrirvara, með þeim rökum að við hefðum staðið okkur svo vel í innleiðingu annars orkupakkans, að það væri engin ástæða til að vera að líta til neinna undanþágna fyrir okkur? Síðan þegar orkupakki fjögur væri kominn, þá kæmi orkupakki fimm hingað inn með sömu rökum.

Þetta hljómar auðvitað eins og einhver útúrsnúningur og hræðsluáróður. En er þetta ekki staðan sem blasir dálítið við okkur ef við horfum dálítið köldum augum á málið? Rökin sem lögð eru fyrir þingmenn eru meira og minna þeirrar gerðar að ekki er mikið lagt upp úr því að útskýra fyrir okkur þingmönnum, sem efumst um innleiðinguna, eða almenningi sem fylgist með hvað sé í þessu fyrir okkur.

Deilir hv. þingmaður þeirri skoðun með mér, að við séum að því er virðist á einhvers lags færibandi sem mun færa okkur fjórða og fimmta pakkann með sama hætti og þann þriðja?