149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom fram í ræðu minni í gær að færibandið er búið að vera í gangi og skammtarinn á spægipylsunni hefur verið býsna virkur. Þegar við innleiddum orkupakka tvö, eða aðra raforkutilskipunina, þá gerðum við það svo glæsilega að eftir því var tekið og svo glæsilega að það voru ein af helstu rökunum hjá Evrópusambandinu gegn því að veita Íslandi undanþágu frá orkupakka þrjú, þ.e. að við hefðum innleitt orkupakka tvö svo glæsilega og gengið jafnvel lengra í þeirri innleiðingu en kröfur voru til. Og jafnframt erum við farin að framleiða það mikið rafmagn að við uppfyllum ekki lengur einhver tilbúin viðmið hjá Evrópusambandinu um hvað telst lítið raforkukerfi.

Það sem við vitum hins vegar er að þessir pakkar halda áfram að koma. Nú vitum við að orkupakki fjögur liggur fyrir. Það er búið að birta hann. Hann var í rauninni settur í gang árið 2016, hann er til umfjöllunar hjá Evrópusambandinu. Það er verið að kynna hann hjá hagsmunaaðilum, ef má orða það þannig, í það minnsta virðist norska ríkisstjórnin hafa fengið einhverja kynningu á honum. Því er eðlilegt að við förum fram á það að kafað sé ofan í það hvað er í þessum fjórða pakka fyrst hann er tilbúinn, til þess að við lendum ekki í þeirri stöðu að þegar hugsanlega verði búið að samþykkja orkupakka þrjú þá komi niðurstaða um að við hefðum gert það svo glæsilega og vel að við gætum ekki annað en samþykkt líka orkupakka fjögur.

Við í það minnsta getum tekið ákvörðun í dag ef við setjumst yfir þennan fjórða pakka. Þá væri hægt að taka meðvitaða ákvörðun um það hvað yrði í framtíðinni. Hvað er þarna handan við hornið, hvað er það sem Evrópusambandið er við það að ganga frá hjá sér? Við getum gert það ef við stöldrum aðeins við. Ef við gerum það ekki finnst mér það í rauninni svolítið kæruleysi að ætla að fara að samþykkja þetta (Forseti hringir.) án þess að kafa ofan í það hvað er í pakka fjögur þegar hann liggur á borðinu.