149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:52]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hjó eftir því sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sagði um þennan fjórða orkupakka. Ég er alveg sammála því að við eigum kannski að fara að horfa svolítið til framtíðar — hverjar hugsanlegar afleiðingar geta verið — í stað þess að horfa til orkupakka eitt og tvö. Ég vil þó segja fyrst að norski verkamannaflokkurinn var búinn að samþykkja í þriðja orkupakkanum að settir yrðu átta lagalegir fyrirvarar. Síðan hefur ekkert spurst til þeirra. Ég er að velta fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi hugmynd um hvað varð af þeim.

Hitt er svo annað mál að hv. þingmaður ræddi hér að ekki hefðu neinir íslenskir fjölmiðlar veitt fjórða orkupakkanum athygli. Þó er ég hér með grein sem er úr Bændablaðinu, sem fær nú opinbera auglýsingu. Þeir eru þó altént með umfjöllun um fjórða orkupakkann, tala um hann sem kolsvarta skýrslu. Mín spurning í framhaldinu er vangavelta um að ekki er lengur talað um sjálfstæð ríki, þegar við erum tengd, heldur er talað um svæði. Við munum sem sagt tilheyra svæði en við munum ekki vera sem sjálfstætt ríki inni í þessu vöruskiptadæmi, vil ég segja, sem mun eiga sér stað. Ég ætla aðeins að fá hv. þingmann til að varpa ljósi á þetta.