149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:56]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er nefnilega býsna áhugavert þegar maður fer að lesa aðeins lengra í þessari grein sem birtist í Bændablaðinu. Fyrir það fyrsta er ACER ætlað að tryggja þetta frjálsa flæði orku og þá sérstaklega frá þeim sem hafa lágt raforkuverð yfir á þau svæði sem hafa hátt. Við getum ímyndað okkur hvernig það endar. Það er einmitt ekki talað lengur um þessi sjálfstæðu ríki. Ég hnaut sérstaklega um það að viðkomandi ríki munu ekki lengur hafa ákvörðunarvald um hvert orkan verður seld. Mér finnst það svolítið alvarlegt, af því að við erum ekki enn búin að setja okkur orkustefnu hér á landi. Við þyrftum eiginlega að setja okkur orkustefnu. Síðan gætum við farið að huga að því hvernig og hvenær við ætlum að senda okkar dýrmætu orku úr landi.