149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sú innleiðing sem á sér stað með orkupakka þrjú — við erum að innleiða þessar gerðir og innleiða um leið viðmiðin, stefnuna, tækin og tólin sem tilheyra þessum gerðum, burtséð frá því hvort við munum einhvern tímann tengjast Evrópu með sæstreng eða ekki. Við erum að innleiða þessar tilskipanir og þeir fyrirvarar sem hér eru nefndir eru, eins og aðrir hafa sagt, fyrst og fremst til heimabrúks.

Sama verður að sjálfsögðu með orkupakka fjögur: Ef við innleiðum þær gerðir sem þar bíða okkar erum við að sjálfsögðu að innleiða þá ábyrgð að fylgja þeim eftir og sjá til þess að samningurinn við Evrópska efnahagssvæðið virki eins og hann á að virka, þar á meðal skv. 7. gr. þar sem talað er um að menn eigi að sjá til þess að hann virki sem heild.