149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:06]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er eindregið þeirrar skoðunar og hef marglýst því hér að öllum steinum hafi ekki verið velt við. Ég hef margkallað eftir því að aflað yrði lögfræðilegra álitsgerða um þá leið sem var valin, þ.e. full innleiðing en með því sem heitir lagalegum fyrirvara. Sú leið hefur ekki verið skýrð með fullnægjandi hætti. Það er mjög bagalegt, svo ekki sé sterkar að orði kveðið, að ekki sé fyrir hendi lögfræðileg greining á þeirri leið, enda er hún ekki reist á ákvæðum samningsins sjálfs, eins og sú megintillaga sem liggur fyrir í álitsgerð tvímenninganna.

Reyndar tel ég að þessi álitsgerð sé nánast barmafull af viðvörunarorðum. Þau lúta annars vegar að árekstri við stjórnarskrá lýðveldisins, nr. 33/1944, og svo hins vegar að afleiðingum af innleiðingu. Það eru fjöldamörg dæmi um viðvörunarorð þar sem bent er á að erlendur aðili fái hér íhlutunarrétt, eins og nánar er rakið, varðandi skipulag, ráðstöfun og nýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar.

Þetta er það sem við blasir. Það er þetta sem við erum að fjalla um og það er þetta sem okkar ágætu samþingsmenn sem styðja þetta fást ekki til að ræða. Fjarvera þeirra er náttúrlega áberandi.

Það er líka hárrétt sem hv. þingmaður segir að það er auðvitað mjög sláandi frétt sem hann vísaði til á laugardaginn í Morgunblaðinu varðandi þessa útboðsskyldu. Það sér bara ekki til botns í því máli öllu saman.