149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:15]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Á meðan við fáum ekki svör við þessum einföldu spurningum getum við ekki í rauninni gert annað en að reyna að geta í eyðurnar. Ég er þeirrar skoðunar að miðað við það sem fyrir liggur og þá staðreynd að stjórnvöld treysti sér ekki til að svara spurningunni þá sé tiltölulega einfalt að geta í eyðurnar. Ég bið hv. þingmann að andmæla því ef hann er ekki sammála þessari túlkun minni. En mér finnst blasa við, við þessar aðstæður, að hjá Evrópusambandinu líti menn svo á að þessar almennu yfirlýsingar um að menn viðurkenni það að Ísland sé eyja og einhverjir fyrirvarar í greinargerð með þingsályktunartillögu skipti bara nákvæmlega engu máli í heildarsamhenginu og til lengri tíma, hvað varðar það meginmarkmið Evrópusambandsins og þriðja orkupakkans, að tengja saman raforkukerfi landanna og færa það allt saman undir stjórn sameiginlegar evrópskrar stofnunar.