149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:24]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Herra forseti. Ég hafði boðað það að næst myndi ég flytja ræðu um stöðu mála í Noregi, ekki hvað síst í norskri pólitík, í sambandi við þennan orkupakka og hvaða áhrif það hefði á stöðuna hjá okkur. Í framhaldi af því ætlaði ég svo að fjalla um Kýpur og tengingu við Kýpur með sæstreng, sem er mjög áhugavert dæmi, dæmi úr raunheimum sem getur útskýrt fyrir okkur hvað Evrópusambandið ætlar sér með þessu öllu saman. En svo brá mér í brún að heyra það í ræðum eða andsvörum rétt áður en ég tók til máls að búið væri að halda kynningar á fjórða orkupakkanum fyrir einhver samtök og hagsmunaaðila úti í bæ á sama tíma og stjórnvöld halda honum leyndum fyrir þinginu, sem á sama tíma er ætlað að afgreiða þriðja orkupakkann sem er boðaður hér sem einhvers konar afleiðing af fyrsta og öðrum orkupakkanum og þar af leiðandi væntanlega undirbúningur fyrir fjórða pakkann. Ég verð því að láta ræðu mína um Noreg og samspil norskra stjórnvalda við þetta allt saman bíða þar til næst, en bið þó hæstv. forseta að setja mig strax á mælendaskrá svo ég geti fjallað um þau mál. Ég get ekki annað en brugðist við því sem við fengum að heyra hér áðan, að í gangi væru kynningar á fjórða orkupakkanum annars staðar en hér í þinginu, annars staðar en gagnvart fólkinu sem ætlast er til að á sama tíma taki ákvarðanir um þriðja pakkann.

Þetta rifjaði upp fyrir mér grein, tiltölulega stutta en engu að síður mjög áhugaverða, sem birtist í Morgunblaðinu fyrir skömmu sem skrifuð var sameiginlega af átta forystumönnum íslenskra atvinnurekenda til stuðnings þriðja orkupakkanum. En það sem mér þótti merkilegast við þá grein var að þessir fulltrúar atvinnulífsins voru ekki að reyna að veifa einhverjum ímynduðum fyrirvörum eða halda því fram eins og ríkisstjórnin gerir hér að þetta hafi engin áhrif. Það var eiginlega þvert á móti.

Virðulegur forseti. Greinin gekk út á það að útskýra hvers vegna væri mikilvægt að innleiða þriðja orkupakkann til að ná þeim áhrifum sem hann ætti að hafa. Þetta minnti óneitanlega líka á orð forstjóra Landsvirkjunar sem lýsti því að það þyrfti að samþykkja þriðja orkupakkann til að bæta samkeppnisstöðu Landsvirkjunar gagnvart álframleiðendum hvað varðar raforkuverð. Augljóslega taldi forstjóri Landsvirkjunar ekki að orkupakkinn hefði engin áhrif, heldur þvert á móti að hann hefði umtalsverð áhrif og þá væntanlega með tengingu við evrópska raforkukerfið og verðhækkanir af þeim sökum. Þetta var þá meira í ætt við nálgun þessara átta forystumanna úr atvinnulífinu sem lýstu því að þeir teldu mjög mikilvægt að ná fram þeim raunverulegu áhrifum sem þeir greinilega litu svo á að orkupakkinn myndi hafa. Ekki var hægt að lesa annað úr greininni en að þau áhrif væru m.a. þau að tengja saman raforkukerfi Íslands og Evrópu til að við gætum selt orku og hækkað orkuverð og selt íslensku umhverfisvænu orkuna til annarra landa sem einhvers konar, ja, lið í því að berjast við losun gróðurhúsalofttegunda, sem við gerum að sjálfsögðu nú þegar þótt við notum orkuna hér á Íslandi.

En ástæðan fyrir því að þetta rifjaðist upp fyrir mér voru þessar staðhæfingar sem ég heyrði hér áðan um að verið sé að kynna fjórða orkupakkann fyrir aðilum úti í bæ, hagsmunaaðilum sem líta þriðja orkupakkann þeim augum sem ég lýsti, telja hann mikilvægan ekki vegna þess að hann hafi engin áhrif, heldur einmitt mikilvægan vegna þess að hann hafi mjög raunveruleg áhrif. Og spurningin er þá hver viðbrögð þeirra hafi verið við fjórða orkupakkanum, hvort þeir telji þau áhrif sem þar er lýst enn frekara fagnaðarefni. Það var a.m.k. að skilja á greininni sem ég vísaði í, þar sem beinlínis var tekið fram að þetta væri liður í þróun sem svo héldi áfram og sú þróun væri mjög eftirsóknarverð.

Ég kalla eftir því, virðulegur forseti, að við þingmenn fáum kynningu á fjórða orkupakkanum.