149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:32]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Þær upplýsingar sem hv. þingmaður veitir mér hér setja þessi skrif, til að mynda þessara forystumanna úr atvinnulífinu, í alveg nýtt samhengi að mínu mati, eða réttara sagt undirstrikar það að skilningur minn hafi verið réttur, sá skilningur að þeir telji að innleiðing orkupakkans muni hafa mjög raunveruleg áhrif og sé aðeins liður í einhverju sem koma skal í framhaldinu. Og allt þetta er að mati þeirra aðila hið besta mál, en einmitt af ástæðum sem ég tel að gefi tilefni til að við spyrnum við fótum og höfum varann á varðandi þennan orkupakka, ástæðurnar verandi þær að hægt verði að selja raforku á hærra verði, hækka raforkuverð með öðrum orðum, og hægt verði að flytja út umhverfisvæna íslenska raforku til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Eins og nýting slíkrar orku hér á landi geri ekki svipað gagn, nema bara miklu meira gagn fyrir samfélagið?

Að heyra svo þessa hluti, að menn séu búnir að skoða þennan fjórða orkupakka lengi án þess að þingið hafi fengið nokkra einustu kynningu á honum, á sama tíma og við lesum grein eftir hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur þar sem hún ber sérstakt lof á málsmeðferð orkupakkans hér í þinginu, er náttúrlega bara enn ein staðfesting þess að það fer ekki saman og oft og tíðum eru í því beinar þversagnir sem stjórnvöld kynna okkur hér og boða almenningi annars vegar um þennan orkupakka og svo hins vegar raunveruleikinn eins og hann birtist, hvort sem það er í grein eftir forystumenn úr viðskiptalífinu, (Forseti hringir.) eða grein sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir skrifar.