149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:34]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það eru kannski tvö atriði sem ég vildi taka upp við hv. þingmann að þessu sinni, annars vegar að við stöndum frammi fyrir því að við erum að, kannski megi nota orðið sogast, inn í raforkukerfi Evrópu með atbeina svokallaðrar salamí-aðferðar, þ.e. sneið fyrir sneið, þegar frekar ætti auðvitað að meta málið í heildrænu samhengi. Við höfum vikið að orkupökkum fjögur og fimm í því samtali sem hefur átt sér stað hér en það er bara allt of þröngt sjónarhorn að vera að meta þennan orkupakka þrjú einan og sér í því ljósi.

Sömuleiðis varðandi þessa málsmeðferð, og því tengt hafa verið að mæta fulltrúar stofnana, opinberra stofnana, sem (Forseti hringir.) hafa verið að lýsa afstöðu þeirra stofnana til þessa máls. Hvernig getur ríkisstjórnin (Forseti hringir.) haft afstöðu til umdeilds þjóðfélagsmáls? Ég hefði álitið, herra forseti, (Forseti hringir.) að fulltrúar ríkisstjórnarinnar ættu að greina og kryfja efni (Forseti hringir.) málsins og leggja það fyrir af þingnefndum. (Forseti hringir.) En að vera að taka afstöðu til málsins sem (Forseti hringir.) kjörnir fulltrúar eiga að vega og meta þykir (Forseti hringir.) mér afar sérkennilegt.

(Forseti (GBr): Forseti áréttar við hv. þingmenn að þeir virði tímamörk.)