149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:36]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Hvað segir þetta okkur, sú staðreynd að embættismenn, fulltrúar stofnana sem eiga að hafa það hlutverk að framfylgja vilja almennings í gegnum milligöngu lýðræðislega kjörinna fulltrúa á Alþingi eða hjá framkvæmdarvaldi, að þeir skuli beita sér með þessum hætti í þessu máli? Er þetta ekki bara enn ein staðfesting þess að framganga ríkisstjórnarinnar í málinu er afleiðing af því að hún lætur embættismannakerfi, hvort sem það er staðsett á Íslandi, í Brussel eða í Noregi þess vegna, stjórna sér í málinu? Hún er ekki að berjast fyrir innleiðingu þriðja orkupakkans af því það sé einhver sérstök stefna stjórnarflokkanna, ég hefði haldið þvert á móti, a.m.k. miðað við afstöðu stuðningsmanna þeirra. En þetta er bara enn eitt dæmið sem sýnir fram á að það sem við sitjum uppi með á Íslandi er hrein kerfisstjórn.