149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:52]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Eins og mér hefur verið tíðrætt um undanfarið eru engin lög um orkumál í gildi á Íslandi. Það eru engin lög um auðlindastýringu til staðar og undir þeim skilmálum ætlum við að innleiða erlend yfirráð á orkuauðlindum þjóðarinnar. Í reglugerð ESB segir að ekki megi leggja kostnað af innviðauppbyggingu á raforkuverð úr landi og sá kostnaður skal eingöngu greiðast af innlendum notendum. Það segir mér eitt, að verð hér á landi mun hækka. Heimilin í landinu munu þurfa að borga hærra verð.

Orkutap vegna tenginga milli landa má ekki leggjast á raforkuverð kaupenda heldur skal það orkutap koma í hlut seljanda orkunnar. Landsvirkjun segist eiga 12% umframorku og tap við flutning á þeirri orku er sirka 10%. Ég velti því fyrir mér hvar Landsvirkjun ætlar að fá orku til þess að selja í gegnum sæstreng. Samkvæmt nýjasta PCI-lista ESB er lagning IceLink sæstrengsins talin það brýn að sambandið hefur ákveðið verkefnið styrkjahæft. Það segir okkur nokkuð um hvað er í húfi. Verklok eru ákveðin árið 2030. Af einhverjum ástæðum er það akkúrat þá sem Þýskaland hefur ákveðið að minnka kolefnisúrgang sinn, á nákvæmlega sama tíma.

Ef við lítum á þingsályktunartillöguna eru tveir alvarlegir annmarkar á henni. Í ljósi ákvæða 97. gr. EES-samningsins hefur fyrirvarinn í þingsályktuninni ekkert gildi nema hann uppfylli skilyrði 97. gr. EES-samningsins, þ.e. að hann sé borinn undir sameiginlegu EES-nefndina og samþykktur þar. Það leiðir af sér að ef Alþingi heimilar ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn taka allar þrjár tilskipanirnar gildi. Þá á sér stað meira valdaafsal til erlendra aðila yfir íslenskum hagsmunum á orkusviði en stjórnarskráin heimilar.

Það er nefnilega þannig að í þriðja orkupakka Evrópusambandsins verður Evrópusambandið úrskurðaraðili í tilteknum orkumálum. Það verður æðra öllum yfirvöldum Íslands. Þetta leiðir vissulega af sér, ég gef mér það, að stjórnkerfið muni bólgna út og Íslendingar munu þurfa að greiða með beinum eða óbeinum sköttum t.d. hærra raforkueftirlitsgjald, auk þess sem raforkuverð mun hækka. Það er eiginlega svolítið sérstakt að við séum að líta svona til baka, eins og við höfum gert hér í dag, að við séum að velta fyrir okkur hvað það var sem gerði að verkum að við samþykktum orkupakka eitt og orkupakka tvö.

Núna fyrst fáum við raunverulega í hendurnar tækifæri til að halda áfram á löglegan máta, vil ég leyfa mér að segja, með því að nýta tækifærið núna og senda þennan orkupakka þrjú inn til sameiginlegu EES-nefndarinnar, þannig að við getum með sannanlegum hætti sett inn löglega fyrirvara. Það kom hér fram fyrr í kvöld að settir voru fyrirvarar í Noregi. Þeir voru átta talsins og enn hefur ekkert af þeim verið virkjað. Það segir mér eitt, að það virðist vera að þeir skipti bara ekki máli, að þeir séu til heimabrúks, til að fá fólk til að samþykkja það sem hugsanlega, eins og við höfum talað um, kerfið hefur ákveðið.