149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:01]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi bara hafa vaðið fyrir neðan mig og gera því skóna að að svo komnu máli væri a.m.k. einhver hluti fjórða orkupakkans enn þá í drögum. Það er vafalaust rétt sem hv. þingmaður segir að eitthvað af honum er sjálfsagt fullbúið.

Það hefur komið fram að þeim gerðum sem þegar liggja fyrir hafi verið miðlað af hálfu stjórnvalda, eftir því sem best verður skilið, til samtaka í atvinnulífinu, þar voru nefnd Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins, þannig að það er hér á stjórnarskrifstofum og á vettvangi atvinnulífs fjallað um og rýnt og skoðað. En á þeim stað þar sem hin endanlega ákvörðun verður tekin hafa engir slíkir tilburðir verið hafðir uppi og ekki höfð uppi lágmarksviðleitni til að kynna þennan orkupakka eða efni hans fyrir Alþingi (Forseti hringir.) og þaðan af síður hefur verið lögð fram nokkur greinargerð um reynslu Norðmanna af þessum þriðja orkupakka, (Forseti hringir.) en þeir beittu sér fyrir því að settir yrðu einir átta fyrirvarar (Forseti hringir.) en til þeirra hefur ekkert spurst.