149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:13]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni kærlega fyrir, þetta er nefnilega svolítið sláandi. Það er sláandi að hugsa til þess að við séum komin á þann stað að við séum að ræða um orkuauðlindir Íslands undir þeim formerkjum að verið sé að rugla með þær og halda því fram að við þurfum að fara í viðskipti með þær.

Ég trúi því varla, en ég held að það sé satt, að verið sé að skiptast á einhvers konar aflátsbréfum og þau gangi hreinlega kaupum og sölum, enda er það krafan frá Evrópusambandinu að það þurfi hreina orku. Ef ég man rétt eru 70% orkuframleiðslu í Evrópusambandinu svokölluð óhrein orka og það ætlar sér að ná því takmarki árið 2030, ef ég man rétt, að vera með ákveðið hlutfall af svokallaðri hreinni orku. Þetta talar allt saman þó að það sé í raun dálítið erfitt að skilja samhengið og kannski er erfiðast að viðurkenna að við séum að láta draga okkur inn í þennan veruleika. Það á ekkert við að við séum að velta þessu fyrir okkur; það er algjörlega óhugsandi fyrir okkur að 58% orkuframleiðslu byggist á kolum og 29% á kjarnorku.