149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:17]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er vissulega hægt að halda því fram að þetta séu blekkingar, þetta eru sannarlega blekkingar gagnvart okkur. Ég velti líka fyrir mér í þágu hvers þetta sé. Hver skyldi hafa hag af því að halda málum svona á lofti eins og gert er? Það leiðir allt að sömu niðurstöðu. Það á að búa okkur undir að verða hluti af þessum sameiginlega evrópska markaði.

Hv. þingmaður spurði hver myndi skera úr um ef upp kæmu álitamál. Það verða ekki íslensk stjórnvöld, svo mikið veit ég. Það verður þessi stofnun, sem kallast ACER, sem mun hafa yfirráð, og yfirráð yfir íslenskum stjórnvöldum, þegar kemur að málum sem þarf að skera úr um. Og í hvers þágu starfar sú stofnun? Hún starfar ekki í þágu okkar Íslendinga, hún starfar alfarið í þágu Evrópusambandsins.