149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:18]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég hafði byrjað fyrri ræðu á að fara yfir virkjunarsögu landsins. Ég ætla að halda áfram með þá sögu fyrst ég fæ áfram tækifæri til þess í þessari ræðu. Ég hafði nefnt nokkra framsýna hagleiksmenn sem hófu í upphafi síðustu aldar að smíða, nánast úr engu, tækjabúnað sem var þess megnugur að ná út úr vatnsaflinu orku sem unnt var að nota til að létta undir með mönnum verkin með því að knýja vélar og auðvitað einnig til þess að tendra rafljós.

Þótt bæði efni og verkfæri væru af skornum skammti brást þessum mönnum ekki bogalistin og þeir náðu markmiðum sínum sér og sínum til mikilla hagsbóta. Ég nefndi fjölda heimarafstöðva í Skaftafellssýslum sem smíðaðar voru af Bjarna Runólfssyni í Hólmi en alls smíðaði Bjarni 116 slíkar heimarafstöðvar á örfáum árum. Oft var efni til þessara smíða sótt í strönduð skip. Bjarni lagaði svo vélarhlutana með miklum hagleik að verkefninu, sem var smíði rafala, ásamt öllu öðru sem heimarafstöð krafist.

Herra forseti. Það voru slíkir menn eins og Bjarni Runólfsson í Hólmi, Jóhannes Reykdal í Hafnarfirði og fleiri slíkir frumkvöðlar sem ruddu brautina sem leitt hefur okkur þá löngu leið til stórvirkjana nútímans og ekki síður til þeirrar hagsældar sem fylgt hefur í kjölfarið. Fyrsta stóra virkjunin, ef nota má það orð um virkjun sem í dag er næsta örsmá í samanburði við þær stórvirkjanir sem við höfum reist frá þeim tíma, er virkjun Elliðaánna í Reykjavík 1921, sem er 3,2 megavött.

Eftir virkjun Elliðaánna kemur 16 ára hlé í virkjunarmálum á sviði stærri virkjana þar til Ljósafossstöðin er gangsett 1937 en hún var 16 megavött og var stærsta virkjun til þess tíma. Laxárstöð var gangsett 1939 og með stækkun er hún 27,5 megavött. Þá koma nokkrar smávirkjanir eftir stríð, Skeiðsfossvirkjun, Andakíll og Þverárvirkjun á Vestfjörðum sem eru allar undir 10 megavöttum. Það er ekki fyrr en eftir virkjun Írafoss árið 1953, eftir stríð, sem metið er slegið enn á ný því að sú stöð var með uppsett afl upp á 48 megavött. Þá koma nokkrar minni og stærri virkjanir í aðdraganda Búrfells, Grímsá, Mjólká og Steingrímsstöð, sem er þeirra stærst 1959, 27 megavött.

Þegar þarna er komið, um 1960, er búið að virkja samtals 150 megavött, sem er næsta lítið í samanburði við það sem búið er að virkja í dag. Fyrir réttum 60 árum er uppsett afl allra virkjana á landinu u.þ.b. 150 megavött. Athyglisvert er að skoða að næsta virkjun, sem var Búrfell, 1969, er stærri en allt uppsett afl í landinu á þeim tíma og 5–6 sinnum stærri en stærsta virkjun til þess tíma. Búrfellsstöðin skilar 270 megavöttum.

Sú virkjun mótar þáttaskil í virkjunarsögu landsins því að orka frá henni var beinlínis ætluð til stóriðju, nánar tiltekið til álbræðslu. Ef gluggað er í heimildir frá þeim tíma, í aðdraganda byggingar virkjunarinnar og stóriðjunnar, þá reiknaðist mönnum til að Íslendingar myndu greiða upp lánin vegna virkjunarinnar og dreifikerfisins á kannski aldarfjórðungi, herra forseti, eða þannig að þjóðin ætti virkjunina og dreifikerfið skuldlaust rétt fyrir eða um aldamótin síðustu. Þetta er mikilvægt að hafa í huga í dag þegar við ræðum um framtíð orkuauðlindarinnar.

Eftir þá stórvirkjun, Búrfellsvirkjun, fara menn að verða stórtækari; Bjarnarflag er 3 megavött 1969, um 1970 koma nokkrar stærri á þeim tíma, Lagarfoss 1975, 27 megavött, Svartsengi 1976, 75 megavött, Krafla, sem er reyndar gufuaflsvirkjun eins og í Svartsengi, er gangsett 1977. Þrátt fyrir margháttaða byrjunarörðugleika hefur hún verið að skila 60 megavöttum. Þegar þarna er komið sögu er heildarafl á landinu 1977 einungis 600 megavött, þó ekki séu allt þar vatnsaflsvirkjanir. Ég mun halda áfram með þessa sögu í næstu ræðu minni.