149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir áhugaverða ræðu og hlakka til að heyra afganginn af henni. Það er nefnilega mjög hollt að rifja upp sögu orkunýtingar á Íslandi. Það eru ekki endilega allir sem gera sér grein fyrir því hvers konar þrekvirki það var í rauninni að koma því af stað að við færum að nýta fallvötnin og síðar jarðhitann á okkar hrjóstruga landi.

Það er vel við hæfi að ræða þetta nú þegar við ræðum orkupakka þrjú, og orkupakka fjögur, reyndar svona í framhjáhlaupi, í ljósi þess að innleiðing á orkutilskipunum Evrópusambandsins, allt frá númer eitt, hafa gert að verkum að smám saman erum við að deila, eða missa, forræði yfir nýtingu, verðlagningu og umsýslu með orkuauðlindir okkar. Varla hafa þessir frumkvöðlar farið af stað í slíkar framkvæmdir til að verða hluti af einhverjum risastórum orkumarkaði þar sem verslað er með orkuna líkt og hverja aðra vöru. Kostulegt er að sjá að undir forystu Vinstri grænna sé áfram haldið að markaðsvæða raforkugeirann.

Mig langar því að spyrja þingmanninn hvort ekki sé eðlilegt að staldra við og forðast að taka fleiri skref í átt til markaðsvæðingar raforkunnar með hinum evrópska orkumarkaði og nýta frekar orkuna hér heima. Og hafa verð á orkunni eins og við viljum og teljum rétt að verðið sé til að geta nýtt til atvinnuuppbyggingar og til að styrkja byggð, og hreinlega ef hægt er að bjóða lægra orkuverð til heimila. Markmið frumkvöðlanna á sínum tíma hlýtur að hafa verið að bæta hag þjóðarinnar, bæta hag þeirra sem geta notið orkunnar, og um leið að búa til verðmæti.