149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:29]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir spurningarnar. Hann orðaði það ágætlega þegar hann sagði að þetta væri framtíðareign okkar Íslendinga, sem er vel að orði komist.

Ég er handviss um að landsmenn líta þetta þeim augum að þeir eigi þessa auðlind. Ég er líka handviss um að menn muni ekki sætta sig við eða taka í mál að þessi réttur, þessi auðlind verði í stórum stíl einkavædd og seld síðan landsmönnum til framtíðar.

Menn ætlast til þess að njóta þeirra ávaxta sem þeir hafa lagt á sig, þ.e. með þeirri sögu sem ég hef rakið, ég er að benda á að þjóðin tekur á sig þær byrðar sem felast í því að taka lán, taka þá áhættu, til að byggja upp (Forseti hringir.) til framtíðar. Menn munu ekki líða að þetta verði sett í hendur annarra en þjóðarinnar.