149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:36]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur fyrir spurningarnar. Hún spurði síðast um orkuverðið, að það hefði hækkað. Menn rífast um það hér í þessum ræðustól hvort það sé staðreynd eður ei. Ég skal ekki leggja mat á það. Ég talaði síðast í gær við mann sem er í garðyrkjunni og hann fullyrti, eins og reyndar fleiri hafa gert, að orkuverð hefði hækkað, sérstaklega sá hluti, herra forseti, sem heitir flutningur og dreifing, eftir að við aðskildum þann hluta frá orkureikningunum. Auðvitað eykur það báknið og veldur mjög líklega einhverri hækkun þó að menn geti rifist um hversu mikil hún sé.